Cole Palmer var allt í öllu þegar Chelsea vann góðan sigur á Newcastle í kvöld. Liðin sitja í tíunda og ellefta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Það var Nicolas Jackson sem kom Chelsea yfir eftir nokkra mínútna leik en Alexander Isak jafnaði fyrir gestina í lok fyrri hálfleiks.
Palmer kom Chelsea svo yfir eftir 58 mínútna leik með frábæru marki.
Það var svo hinn snöggi og öflugi, Mykhailo Mudryk sem skoraði þriðja mark Chelsea í leiknum þegar hann spólaði sig í gegnum vörn Newcastle.
Jacob Murphy lagaði stöðuna fyrir gestina með þrumuskoti en nær komust þeir ekki.
3-2 sigur Chelsea staðreynd en liðið er nú einu stigi á eftir Newcastle sem er í tíunda sætinu.