Fjórum leikjum lauk í Evrópudeildinni nú fyrir skömmu. Um var að ræða fyrri leiki í 16-liða úrslitum.
AC Milan tók á móti Slavia Prag og bitu gestirnir frá sér. Olivier Giroud kom Milan yfir á 34. mínútu en Tékkarnir svöruðu skömmu síðar. Tijani Reijnders og Ruben Loftus-Cheek sáu hins vegar til þess að heimamenn voru 3-1 yfir í hálfleik.
Ivan Schranz kom Slavia aftur inn í leikinn eftir um tuttugu mínútur í seinni hálfleik. Milan komst þó aftur í tveggja marka forystu á 85. mínútu með marki Christian Pulisic. 4-2 og þar við sat.
West Ham heimsótti Freiburg og þarf að vinna upp tap í seinni leiknum því Freiburg vann 1-0 í kvöld með marki Michael Gregoritsch á 81. mínútu.
Marseille vann þá 4-0 sigur á Villarreal þar sem Pierre-Emerick Aubameyang skoraði til að mynda tvö mörk. Franska liðið er því í vænlegri stöðu fyrir seinni leikinn.
Loks gerðu Benfica og Rangers 2-2 jafntefli í Portúgal.