Þremur leikjum er lokið það sem af er kvöldi í Evrópudeildinni. Um var að ræða fyrri leiki í 16-liða úrslitum.
Liverpool er svo gott sem komið áfram eftir 1-5 sigur á Sparta Prag á útivelli. Heimamenn áttu aldrei séns og var Liverpool 0-3 yfir í hálfleik með tveimur mörkum Darwin Nunez og einu frá Alexis Mac Allister af vítapunktinum.
Conor Bradley kom inn á sem varamaður fyrir gestina í hálfleik en hans fyrsta verk var að setja boltann í eigið net.
Það kom ekki að sök því Luis Diaz skoraði fjórða mark Liverpool á 53. mínútu. Dominik Szoboszlai innsiglaði svo 1-5 sigur og Liverpool í ansi góðum málum fyrir seinni leikinn.
Í Aserbaídsjan komst Qarabag óvænt 2-0 yfir gegn Bayer Leverkusen og þannig var staðan í hálfleik. Þýska toppliðið kom þó til baka í seinni hálfleik og jafnaði með mörkum Florian Wirtz og Patrik Schick.
Roma kjöldró loks Brighton. Liðið leiddi 2-0 í hálfleik með mörkum Paulo Dybala og Romelu Lukaku. Gianluca Mancini skoraði þriðja mark Rómverja eftir tæpar 20 mínútur af seinni hálfleik og skömmu síðar kom Bryan Cristante þeim í 4-0. Það urðu lokatölur og staðan vænleg fyrir ítalska liðið fyrir seinni leikinn á Englandi.