Hollenski knattspyrnumaðurinn Quincy Promes verður ekki framseldur til Hollands í kjölfar þess að hafa verið handtekinn í Dúbaí í síðustu viku.
Í síðasta mánuði var Promes, sem er á mála hjá rússneska liðinu Spartak Moskvu, dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að aðstoða við innflutning á kókaíni. Þá á hann yfir höfði sér 18 mánaða dóm fyrir að stinga frænda sinn í matarboði.
Dómurinn féll í heimalandi hans, Hollandi. Um var að ræða 1363 kíló af kókaíni. Promes er búsettur í Moskvu og eru ekki framsalssamningar milli Rússlands og Hollands.
Í æfingaferð Spartak í Dúbaí var Promes hins vegar handtekinn og honum meinað að ferðast með liðsfélögum sínum aftur til Rússlands. Talið var að hann yrði framseldur þaðan til Hollands.
Samkvæmt nýjustu fréttum var Promes þó handtekin fyrir að yfirgefa slysstað eftir að hafa lent í bílslysi í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum. Hann sleppur við dóm fyrir atvikið en verður sektaður.
Talið er að hann fái að ferðast til Rússlands í dag og verði ekki framseldur vegna hinna tveggja brotanna.
Kenningar eru á kreiki um að rússnesk yfirvöld hafi séð til þess að Promes kæmist aftur til landsins.