Georgina Rodriguez, unnusta Cristiano Ronaldo telur að kærasti sinn muni leggja skóna á hilluna á næstunni og það gæti vel gerst á næstu mánuðum.
Ronaldo er 39 ára gamall en hann er með samning við Al-Nassr í Sádí Arabíu í ár í viðbót.
Ronaldo gæti þó hætt innan tíðar ef marka má Georgina.
„Cristiano á eitt ár eftir, svo er þetta búið. Kannski tekur hann tvö, ég er ekki viss,“ segir Georgina.
Margir velta því fyrir sér hvort Ronaldo gæti látið gott heita í sumar og klárað ferilinn með landsliði Portúgals á Evrópumótinu í Þýskalandi.
Ronaldo er einn besti leikmaður sögunnar og hefur þrátt fyrir aldur náð að halda sér í ótrúlegu formi og verið duglegur við að skora.
Georgina var mætt á tískuviku í París þar sem hún klæddist fatnaði til að heiðra sinn mann.