Mauricio Pochettino, stjóri Chelsea, var afskaplega ánægður í gær eftir sigur sinna manna gegn Leeds.
Pochettino vill meina að Chelsea hafi spilað mjög vel síðustu fjórar vikur þrátt fyrir tap í úrslitaleik deildabikarsins gegn Liverpool um helgina.
Þar tapaði Chelsea 1-0 í framlengdum leik en Liverpool notaði mikið af reynslulitlum leikmönnum í viðureigninni.
Chelsea svaraði fyrir sig með 3-2 sigri á Leeds í gær þar sem sigurmarkið var skorað í blálokin.
,,Síðustu fjórar vikur þá höfum við gert frábæra hluti. Liðið er að leggja sig fram og berjast, þeir eru byrjaðir að spila eins og lið,“ sagði Poch.
,,Það tók sjö til átta mánuði að koma hugmyndunum á framfæri en þetta er nýtt lið. Að byggja upp lið snýst um tíma og jafnvægi.“