Það styttist í að Sir Jim Ratcliffe eignist formlega 25% hlut í Manchester United en hann mun taka yfir fótboltahlið félagsins. Hann er stórhuga fyrir framhaldið.
United hefur átt afleitt tímabil og er í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar. The Athletic segir hins vegar að Ratcliffe vilji ólmur tryggja Meistaradeildarsæti, það muni líka hjálpa fjárhag félagsins.
Til þess hefur komið til umræðu að reyna að klófesta tvo leikmenn Bayern Munchen en vegna FFP reglna þyrftu þeir að koma á láni.
Um er að ræða þá Matthijs De Ligt og Eric Maxim Choupo-Moting.
De Ligt er ekki lengur í hjarta varnarinnar í besta byrjunarliði Thomas Tuchel hjá Bayern og þá er Choupo-Moting þriðji kostur í framlínunni. Samningur þess síðarnefnda er þá að renna út og Bayern mun ekki standa í vegi fyrir honum, vilji hann komast annað.