Þorvaldur hefur gríðarlega reynslu úr flestum öngum fótboltans, en undanfarið hefur hann verið rekstrar- og íþróttastjóri knattspyrnudeildar Stjörnunnar. Mun hann etja kappi við fyrrum félaga sinn úr landsliðinu, Guðna Bergsson, um formannsstólinn. Það tók Þorvald nokkurn tíma að taka endanlega ákvörðun um að bjóða sig fram.
„Fljótlega eftir að Vanda (Sigurgeirsdóttir, núverandi formaður) ákvað að bjóða sig ekki fram fór ég að hugleiða og menn að viðra þetta við mig líka. Ég tók þennan tíma í það og ákvað að gera það vel og hugsa það vel. Þetta er stór ákvörðun, ekki bara fyrir mig heldur líka fjölskylduna og vini og vandamenn. Svo þarf að átta sig á hvort það sé stuðingur eða áhugi á þínu nafni inn í þessa stóru hreyfingu,“ segir Þorvaldur í sjónvarpsþætti 433.is.
„Þetta er risastór hreyfing og menn hafa margar skoðanir. Ég hefði ekki farið fram nema ég hefði fengið jákvæð viðbrögð. Það var ýtt á mig líka að koma fram með þetta. Ég geri mér samt grein fyrir að það eru mismunandi skoðanir og fleiri eru í boði. En ástæðan er fyrst og fremst sú að ég fékk það góðan stuðning að ég taldi mig eiga séns á að fara í þetta.“
Þorvaldur var spurður að því hverjar hann teldi að væru helstu áskoranir næsta formanns KSÍ.
„Það er breytt landslag hvað deildarkeppnir varðar. Við erum með annað batterí sem heitir ÍTF og við erum með KSÍ. Svo er grasrótin og annað, þetta er allt að stækka. En fyrst og fremst vil ég að hreyfingin einbeiti sér í sömu átt. Ég held að allir séu sammála því að hugsa um hag knattspyrnunnar, bæði deilda og landsliða. Ég vil að KSÍ og ÍTF leiði þá baráttu að gera deildina enn sterkari. Með því tel ég að félögin verði sterkari, það verður vinsælli deild og við getum fengið stærri sjónvarpssamninga. Við getum fengið betri leikmenn og leikmennirnir okkar verða betri. En að sama skapi viljum við líka byggja á okkar frábæra landslið. Við viljum aftur ná þeim hæðum sem við vorum á en það er ekki sjálfsagt.“
Guðni, sem er fyrrum formaður KSÍ, hafði tilkynnt um framboð sitt áður en Þorvaldur gerði það. Þeim síðarnefnda líst vel á baráttuna sem framundan er við gamlan félaga.
„Ég fagna því að menn bjóði sig fram. Þá hefur fólk val sem er mjög gott, að það sé ekki bara rússnesk kosning,“ segir Þorvaldur léttur.
Mikið hefur verið fjallað um mikinn taprekstur KSÍ á síðasta ári og þarf nýr formaður að glíma við það.
„Auðvitað hafa úrslit á sviði knattspyrnu áhrif. Það orsakast af einhverju, það voru fleiri verkefni á síðasta ári. En kannski hefði verið hægt að gera betur en það þýðir voða lítið að horfa í baksýnisspegilinn. Menn þurfa að horfa fram veginn og reyna að leysa þau mál sem koma upp. Hvort sem það er að leysa fjárhaginn eða ná betri úrslitum, það hlýtur að vera hagur allra.“
Málefni Laugardalsvallar eru alltaf mikið í umræðunni og segir Þorvaldur, eins og flestir innan knattspyrnuhreyfingarinnar, að aðgerða sé þörf, enda þjóðarleikvangurinn löngu kominn á tíma.
„Ef ég verð kosinn vona ég að við komum því af stað. Við erum búin að tala um þetta ansi lengi. Við þurfum allavega að byrja á því að skipta um undirlag á vellinum. Við þurfum að bæta aðstöðu eins og klefamálin. Ég held það séu sömu snagar og þegar ég var að spila. Þetta er orðið allt, allt og gamalt. Við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti en fyrst og fremst þurfum við að koma vellinum í einhver farveg.“
Ítarlegra viðtal við Þorvald er í spilaranum hér ofar.