Það kom upp heldur skondið atvik í Lúxemborg í dag þegar þeir Stefán Árni Pálsson, Guðmundur Benediktsson og Kjartan Henry Finnbogason voru að taka upp innslag fyrir leik íslenska karlalandsliðsins í kvöld.
Strákarnir okkar mæta Lúxemborg ytra klukkan 18:45 í kvöld að íslenskum tíma og er leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Af því tilefni eru þremenningarnir mættir til Lúxemborg og voru að taka upp upphitunarinnslag fyrir leikinn mikilvæga í kvöld.
Útsending var hins vegar rofin á einum tímapunkti þegar kona nokkur truflaði þá.
„Þetta er einkalóð,“ sagði hún og þurftu drengirnir að færa sig um set.
„Þetta gefur mér enn frekari ástæðu til að vinna þennan leik. Ekkert eðlilega leiðinlegt fólk sem kom þarna.“
Innslagið má sjá hér að neðan en konan mætir til leiks eftir 11 mínútur og 45 sekúndur.