Það vakti nokkra athygli að Sævar Atli Magnússon væri í byrjunarliði Íslands gegn Lúxemborg í undankeppni EM 2024.
Leikurinn hefst nú klukkan 18:45. Strákarnir okkar eru aðeins með þrjú stig í undanriðlinum það sem af er og þurfa nauðsynlega á sigri að halda.
Sem fyrr segir var Sævar nokkuð óvænt í byrjunarliðinu og var þetta tekið fyrir í umfjöllun Stöðvar 2 Sport fyrir leik.
„Hann er búinn að spila mjög vel fyrir Lyngby. Hann kemur með mikinn kraft, er duglegur, fljótur og mér skilst að Age Hareide sé mjög hrifinn af honum,“ sagði Kjartan Henry Finnbogason um sóknarmanninn unga.
Kolbeinn Birgir Finnsson er einnig í byrjunarliðinu. Hann og Sævar eru liðsfélagar hjá Lyngby og telur Kjartan það geta hjálpað.
„Sævar og Kolbeinn í vinstri bakverðinum ættu að geta unnið vel saman.“