Guðni Bergsson, fyrrum formaður KSÍ, hefur ritað pistil á Vísi í kjölfar mikillar umræðu um Þjóðarleikvang Íslands í knattspyrnu.
Umræðan fór aftur af stað í kjölfar þess að Breiðablik tryggði sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu, fyrst íslenskra karlaliða.
Liðið þarf að spila á Laugardalsvelli þar sem Kópavogsvöllur er ekki löglegur en ljóst er að það mun kosta sitt að hafa þjóðarleikvanginn leikhæfan í nóvember, þegar Blikar eiga að spila tvo heimaleiki í riðlakeppninni.
„Nú stefnir í að bæði karla- og kvennalandslið okkar í fótbolta þurfi að leika heimaleiki okkar erlendis að vetri til. Þessi staðreynd ásamt því að við getum ekki hafið riðlakeppni eða lokið henni á okkar heimavelli eða spilað umspilsleiki um vetur skerðir verulega möguleika okkar á að komast á stórmót,“ skrifar Guðni meðal annars.
„Enn fremur er líklegt að félagslið okkar í Evrópukeppni í framtíðinni verði að leika einhverja heimaleiki í riðlakeppni félagsliða á erlendum vettvangi. Við eigum einfaldlega ekki boðlegan eða nýtanlegan heimavöll að vetri til og engin áform virðast vera um byggingu slíks þjóðarleikvangs.“
KSÍ hefur lengi barist fyrir því að fá nýjan þjóðarleikvang og gerði Guðni það í sinni tíð.
„Þetta er nú staðan þrátt fyrir að markviss undirbúningur, kostnaðar- og þarfagreiningar á byggingu og rekstri nýs þjóðarleikvangs hafi staðið yfir í rúmlega 7 ár, með fjórum ítarlegum skýrslum og aðkomu fremstu alþjóðlegra sérfræðinga m.a. ásamt kostnaði upp á annað hundrað milljónir króna.
Vorið 2018 þegar stutt var í að karlalandsliðið okkar færi á HM í Rússlandi var skýrsla starfshóps ,sem skipaður var af Reykjavíkurborg , ríki og KSÍ ,gefin út og kynningarfundur haldinn með pompi og prakt með sérstakri yfirlýsingu Reykjavíkurborgar og ríkisins en þar var m.a. tilkynnt: „Undirbúningur um byggingu þjóðarleikvangs verður hafinn og stefnt er að þeirri vinnu verði lokið og útboð fari fram um byggingu vallarins í árslok 2018.“
Stjórnvöld hafa hins vegar ekki staðið við þetta og nýr þjóðarleikvangur ekki í augsýn.
Guðni leggur fram eftirfarandi rök með því af hverju nýr þjóðarleikvangur ætti að rísa:
Guðni bendir þá á þau jákvæðu markaðslegur áhrif sem góður árangur íslenskra knattspyrnuliða getur haft í för með sér. Hann heldur svo áfram.
„Tökum okkur nú loks taki í þessum málum og gerum þetta í sameiningu. Ég skora á stjórnvöld, bæði ríkisvaldið og Reykjavíkurborg, að fara að standa undir nafni og taka ákvörðun um byggingu nýs þjóðarleikvangs.
Byggjum þjóðarleikvang sem sómi er að og mun hjálpa okkur að ná árangri í framtíðinni og með því stuðlað áfram að öflugu íþróttalífi sem við getum verið stolt af.“