Antony er snúinn aftur til æfinga hjá Manchester United og fær að spila með liðinu á ný ef stjórinn Erik ten Hag velur hann. Félagið staðfestir þetta.
Brasilíumaðurinn hefur verið utan hóps undanfarið vegna ásakanna fyrrverandi kærustu hans um ofbeldi. Hann sætir áfram lögreglurannsókn.
Í gærkvöldi bárust fréttir af því að Antony væri mættur aftur til Manchester frá heimalandinu þar sem hann hafði dvalið undanfarið. Hann fór á fund lögreglu sem varði í fimm klukkustundir. Sjálfur er Antony opinn fyrir því að hjálpa til við rannsókn málsins.
„Síðan ásakanirnar komu fram í júní hefur Antony unnið vel með lögreglu í bæði Brasilíu og Bretlandi. Hann mun gera það áfram. Sem vinnuveitandi Antony hefur Manchester United ákveðið að nú snúi hann aftur á æfingasvæðið og að stjórinn geti valið hann í liðið á ný,“ segir í yfirlýsingu United.
„Sem félag fordæmum við ofbeldi í hvaða formi sem er. Við gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að vernda alla sem að málinu koma og einnig áhrifunum sem málið getur haft á þolendur ofbeldis.“