Rúnar Kristinsson er að hætta sem þjálfari KR í Bestu deild karla en frá þessu er greint í kvöld.
KR gaf út tilkynningu á Facebook síðu sína og staðfestir að Rúnar sé að stíga til hliðar eftir sex ára sem aðalþjálfari.
Samningur Rúnars rennur út í lok tímabils og hefur KR ákveðið að framlengja þann samning ekki.
Tekið er þó fram að Rúnar muni stýra KR í tveimur síðustu leikjum liðsins á þessu tímabili.
Tilkynning:
Rúnar Kristinsson, þjálfari meistaraflokks KR mun láta af störfum sem þjálfari meistaraflokks KR að loknu tímabili. Samningur Rúnars rennur út um mánaðarmót og var það ákvörðun knattspyrnudeildar að framlengja ekki samninginn við hann. Rúnar mun stýra KR liðinu í þeim tveimur leikjum sem eftir eru af tímabilinu.
Rúnar tók við meistaraflokki haustið 2017 en hann hafði áður stýrt liðinu árin 2010-2014. Á þessum tíma hefur Rúnar unnið þrjá Íslandsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla. Rúnar hefur unnið ómetanlegt starf fyrir félagið, innan vallar sem utan, og vandfundnir eru vandaðri menn.
Knattspyrnudeild KR vill fyrir hönd allra KR-inga þakka Rúnari kærlega fyrir framlag hans til félagsins og óskar honum velfarnaðar í leik og starfi.
f.h. stjórnar Knattspyrnudeildar KR
Páll Kristjánsson, formaður.