Napoli hefur sent út yfirlýsingu vegna myndbanda sem birtust á opinberum TikTok reikningi félagsins í vikunni af leikmanni þess Victor Osimhen.
Félagið birti stórfurðuleg myndbönd þar sem annars vegar var gert grín að Osimhen fyrir að klikka á vítaspyrnu gegn Bologna og hins vegar var honum líkt við kókoshnetu.
Osimhen og hans fulltrúar eru sagðir brjálaðir og hóta lögsókn. Napoli heldur því þó fram að myndböndin hafi ekki verið illa meint.
„Napoli vildi aldrei móðga Victor Osimhen sem er í guðatölu hjá félaginu. Til að undirstrika það hafnaði félagið öllum tilboðum sem bárust í framherjann í sumar,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.
„Ef Victor móðgaðist viljum við taka fram að það var alls ekki ætlunin.“