Íþróttavikan heldur áfram að rúlla á 433.is og í Sjónvarpi Símans en nýr þáttur kemur út alla föstudaga. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum og að þessu sinni var gesturinn Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Víkingur er með svakalega yfirburði í Bestu deild karla en mistókst að gulltryggja titilinn í síðasta leik þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við KR.
Var svekkjandi að klára dæmið ekki þar?
„Ég væri að ljúga ef ég segði annað. Það voru allar aðstæður til þess, full stúka og menn vel peppaðir eftir sigur í bikarnum,“ segir Arnar í þættinum.
Víkingur komst 2-0 yfir í leiknum.
„Leikurinn byrjaði vel en það fór sem fór. Það má ekki gleyma að KR er líka að berjast fyrir stóru markmiði.“
Víkingur getur þess í stað klárað titilinn á morgun gegn Breiðabliki eða ef Valur misstígur sig gegn KR í dag.