Micah Richards, goðsögn Manchester City, lenti í ansi vandræðalegu atviki í hlaðvarpsþættinum The Rest sem er í umsjón hans á meðal annarra.
Aðdáendur fengu að senda inn spurningar á stjórnendur þáttarins og var ein af þeim afar óþægileg fyrir Richards.
Hann var þar spurður út í undarlegustu meiðsli sem hann hlaut á ferlinum en þau áttu sér stað í svefnherberginu – eitthvað sem er erfitt að viðurkenna.
,,Ég hef lent í undarlegum meiðslum en þau voru ansi kynferðisleg.. Það er ekki við hæfi í þessu hlaðvarpi,“ sagði Richards.
Gary Lineker, einn af stjórnendum þáttarins, skaut þá inn í: ,,Þetta er allt í lagi, það er aðallega fullorðið fólk sem er að hlusta. Hvað áttu við? Þú getur ekki endað söguna þarna.“
Richards ákvað að tjá sig enn frekar um þessi meiðsli í kjölfarið.
,,Ég var að.. Leika mér, við getum orðað það þannig en ég datt úr rúminu og meiddist aftan í læri. Ég var fínn degi áður á æfingu og eftir atvikið þá spurði sjúkraþjálfarinn hvað í ósköpunum hafði gerst.“
,,Ég sagðist bara finna til í bakinu en vildi ekki tjá mig of mikið. Þeir komust aldrei að sannleikanum þar til núna.“