Rio Ferdinand, goðsögn Manchester United, er ansi áhyggjufullur og er svartsýnn þegar kemur að framtíð félagsins.
Ferdinand rifjar upp ummæli Ralf Rangnick sem tók við liðinu um stutta stund á þar síðasta tímabili og vildi meina að það væri verulega mikið að hjá félaginu.
Ferdinand segir að enginn hafi tekið þessum ummælum Rangnick alvarlega og að það hafi ve rið stór mistök – að hlutirnir séu einfaldlega ekki í jafnvægi á Old Trafford.
Það hefur mikið gengið á bæði innan sem utan vallar hjá Man Utd á tímabilinu og tapaði liðið 3-1 gegn Brighton heima um helgina.
Man Utd spilaði svo annan leik í gær en þá tapaði liðið 4-3 gegn Bayern Munchen í Meistaradeildinni.
,,Fólk er alltaf að leita að sökudólg, þannig virka hlutirnir í dag. Ég heyri fólk segja að Marcus Rashford sé ekki að leggja sig nógu mikið fram eða að Bruno Fernandes sé fyrirliði liðsins,“ sagði Ferdinand.
,,Ralf Rangnick hafði rétt fyrir sér þegar hann fór, þetta er ekki lið sem þarf verkjatöflur, þetta er lið sem þarf aðgerð.“
,,Það var enginn sem tók þessum ummælum alvarlega. Það er ekki einn einstaklingur sem er að fara að laga mál félagsins. Við vorum með Cristiano Ronaldo, sjáið hvað hann hefur gert í fótbolta, ekki einu sinni hann gat lagað þetta.“
,,Við höfum fengið inn fjölmarga knattspyrnustjóra með gott orðspor og þeir löguðu þetta ekki. Við höfum eytt risaupphæðum og það hefur heldur ekki lagað stöðuna.“