„Þetta er rjóminn og kirsuberið á hverju tímabil finnst mér,“ segir Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks fyrir heimaleikinn gegn Shamrock Rovers í Meistaradeildinni á morgun.
Blikar unnu fyrri leikinn ytra 0-1 og er staðan því ansi góð.
„Allt innan hópsins og í kringum klúbbinn, það eru forréttindi að taka þátt í þessu.“
Blikar spiluðu vel í Írlandi en Höskuldur segir að liðið þurfi aftur að eiga sinn besta leik á morgun.
„Eins og við sögðum fyrir leikinn úti, við spiluðum okkar besta leik á tvo ólíka vegu í fyrri og seinni hálfleik. Óskar var búinn að segja okkur að þetta væri ekki steríó týpan af írsku liði. Við þurfum að eiga okkur besta leik.“
„Eins og hefur gerst síðustu tvö ár á undan, þá hefur Evrópa ekki verið aukið álagið þannig að menn bugist. Þetta lyftir öllum á tærnar og menn komast á hærra plan í deildinni.“