Það gengur ekki of vel hjá framherjanum David Datro Fofana sem margir kannast við úr enska boltanum.
Fofana er leikmaður Chelsea en hann kom við sögu í leikjum liðsins á síðustu leiktíð eftir komu frá Molde.
Framherjinn var lánaður til Union Berlin í sumar en hefur ekki staðist væntingar hingað til og er nú í vandræðum í Þýskalandi.
Sky Sports greinir frá því að búið sé að dæma Fofana í viku bann hjá Union vegna rifrildis við Urs Fischer, stjóra liðsins.
Fofana neitaði að taka í höndina á Fischer í vikunni er honum var skipt af velli í 1-0 tapi gegn Napoli í Meistaradeildinni.
Málið varð stærra eftir lokaflautið og var Fischer alls ekki ánægður með framkomu Fofana sem er tvítugur að aldri.
Fofana hefur sjálfur beðist afsökunar á að hafa hundsað þjálfara sinn en útlit er fyrir að bannið muni standa.