Andri Lucas Guðjohnsen hefur verið gjörsamlega frábær í liði Lyngby en hann skoraði annað mark liðsins í 1-2 sigri á OB í kvöld.
Andri Lucas og Kolbeinn Birgir Finnsson voru í byrjunarliði Lyngby en Sævar Atli Magnússon kom inn sem varamaður.
Gylfi Þór Sigurðsson gat ekki verið með Lyngby vegna smávægilegra meiðsla sem hrjá hann.
Lyngby er í sjötta sæti dönsku deildarinnar með 15 stig eftir tíu leiki og á góðu róli um miðja deild.
Á sama tíma var spilað í Svíþjóð þar sem Sveinn Aron Guðjohnsen lagði upp mark fyrir Elfsborg í sigri, hann er bróðir Andra Lucasar.
Hákon Rafn Valdimarsson og Andri Fannar Baldursson voru einnig í byrjunarliði Elfsborg í sigri á Varberg Bois og spiluðu allan leikinn, Sveinn Aron fór af velli undir lokin.
Sjö umferðir eru eftir í sænsku úrvalsdeildinni en Elfsborg er í öðru sæti, stigi á eftir toppliði Malmö.