Erlendir miðlar fjalla um afrek Gylfa Þórs Sigurðssonar sem varð markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins í gær. Fjallað er um málið bæði í Danmörku og á Englandi
„Mættur aftur,“ segir í fyrirsögn The Sun sem fjallar um að þetta hafi verið fyrsti leikur Gylfa í byrjunarliði Íslands í tæp þrjú ár.
Gylfi skoraði fyrra mark sitt úr vítaspyrnu en það síðara kom með laglegu skoti úr teignum.
Ísland tók á móti Liechtenstein í undankeppni EM 2024 í gær á Laugardalsvelli. Það er óhætt að segja að íslenska liðið hafi átt þennan leik með húð og hári. Það tók þó smá tíma að brjóta ísinn en það gerði Gylfi Þór Sigurðsson með marki af vítapunktinum á 22. mínútu. Hans fyrsta mark með liðinu í um þrjú ár.
Það liðu aðrar 22 mínútur fram að næsta marki en þá skoraði Alfreð Finnbogason eftir laglegt spil og staðan í hálfleik var 2-0.
Á 49. mínútu var Gylfi á skotskónum á ný þegar hann skoraði þriðja markið. Með því varð hann markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins með 27 mörk.
Hákon Arnar Haraldsson átti eftir að bæta við fjórða markinu en það gerði hann á 63. mínútu með frábærri afgreiðslu. Staðan 4-0 og urðu það lokatölur.