Íslenska karlalandsliðið tók á móti Lúxemborg í undankeppni EM 2024 á Laugardalsvelli í kvöld.
Strákarnir okkar þurftu nauðsynlega á sigri að halda og var fyrri hálfleikurinn frábær. Var Ísland með öll völd á vellinum og komst verðskuldað yfir á 23. mínútu með marki Orra Steins Óskarssonar eftir glæsilegt samspil.
Ísland leiddi í hálfleik en gestirnir komu mun sterkari til baka í þann seinni og íslenska liðið náði ekki að fylgja eftir góðri frammistöðu sinni fyrir hlé.
Gerson Rodrigues jafnaði fyrir Lúxemborg á fyrstu mínútu seinni hálfleiks. Íslenska liðið reyndi að finna sigurmark þegar leið á en allt kom fyrir ekki. Lokatölur 1-1.
Einkunnir frá 433.is eru hér að neðan.
Rúnar Alex Rúnarsson 5
Gat afskaplega lítið gert í markinu.
Alfons Sampsted 5
Byrjaði vel en fékk högg og datt að því virtist aðeins úr takti við það.
Sverrir Ingi Ingason 5
Flottur fyrri hálfleik en var í talsverðum vandræðum í þeim síðari.
Guðlaugur Victor Pálsson 5
Líkt og aðrir leikmenn þá gerðist minna þegar líða fór á leikinn.
Kolbeinn Birgir Finnsson 5
Góður framan af leik en líkt og liðið ekki í takt þegar líða tók á leikinn.
Willum Þór Willumsson (´70) 5
Byrjaði leikinn vel en það fjaraði fljótt undan því og hann var lítið í boltanum.
Ísak Bergmann Jóhannesson (´70) 5
Átti ágætis fyrri hálfleik en í síðari hálfleik fór hann of mikið í að spyrna boltanum langt sem skilaði engu.
Arnór Ingvi Traustason 5
Verið frábær undanfarið en fann sig ekki í dag
Arnór Sigurðsson (´85) 7 – Maður leiksins
Algjörlega frábær í fyrri hálfleik, með sjálfstraust og lagði upp markið sem var vel gert. Fann sig ekki í seinni hálfleik
Hákon Arnar Haraldsson 6
Virkilega góður í fyrri hálfleik eins og allir fremstu menn Íslands þá virtist allt detta úr sambandi í þeim seinni.
Orri Steinn Óskarsson (´70) 7
Gjörsamlega frábær í fyrri hálfleik en eins og hjá öðrum þá gaf hann eftir í þeim síðari og fékk úr litlu að moða. Tók markið sitt vel
Varamenn:
Gylfi Þór Sigurðsson (´70) 5
Frábært að sjá Gylfa aftur en náði ekki að breyta neinu.
Alfreð Finnbogason (´70) 5
Komst lítið í takt við leikinn.
Jón Dagur Þorsteinsson (´70) 6
Sprengdi þetta aðeins upp en það dugði ekki til. Fékk dauðafæri til að skora.