Toni Kroos er alls ekki hrifinn af þeirri þróun að knattspyrnumenn elti peningana til Sádi-Arabíu. Hann ræddi þetta í nýju viðtali.
Það rataði í fréttir á dögunum þegar Kroos setti athugasemd undir að hinn 21 árs gamli Gabri Veiga væri farinn til Al Ahli í Sádí frá Celta Vigo, en kappinn hafði verið orðaður við stórlið í Evrópu.
„Vandræðalegt,“ skrifaði Kroos undir.
„Það hefur verið sagt að þarna sé spilaður góður fótbolti en þetta snýst allt um peninga. Á endanum er þetta ákvörðun sem er tekin fyrir peninga og gegn fótbolta,“ segir Kroos.
Kroos skilur frekar að menn eins og Cristiano Ronaldo fari til Sádí á lokaárum ferilsins.
„En þetta verður erfitt þegar leikmenn á besta aldri, sem hafa gæðin til að spila fyrir bestu lið í Evrópu, ákveða að fara þangað.“