Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, valdi Orra Stein Óskarsson í hóp sinn fyrir komandi leiki gegn Lúxemborg og Bosníu-Hersegóvínu. Norðmaðurinn hlóð Orra lofi á blaðamannafundi eftir að hópurinn var kynntur í dag.
Orri, sem er aðeins 19 ára gamall, hefur heillað með FC Kaupmannahöfn undanfarið og fékk kallið í A-landsliðshópinn í fyrsta sinn í dag.
„Ég hef séð marga leikmenn í gegnum tíðina sem eru góðir í að klára færi og hann minnir mig mikið á Kasper Dolberg þegar hann var yngri og ég var með hann í danska landsliðinu,“ sagði Hareide um valið, en hinn 25 ára gamli Dolberg var ein skærasta stjarna Dana á sínum tíma. Í dag spilar hann með Anderlecht.
„Orri er frábær markaskorari og klárar færin vel. Ég tel að við þurfum að koma þessum ungu mönnum að og koma þeim inn í þetta. Þess vegna er Orri með okkur núna. Hann hefur staðið sig frábærlega með FCK og er með mikil gæði. Hann á eftir að þróast og verða enn betri.“
Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks er faðir Orra og var hann spurður út í valið á syninum í samtali við 433.is í dag.
„Ég er mjög stoltur. Þetta er frábært fyrir hann. Hann er búinn að leggja mikið á sig og mér finnst hann hafa vaxið gríðarlega á þessu tímabili. Nú þarf hann bara að sanna að hann eigi heima í þessum hóp.“