Indriði á að baki atvinnumannaferil í Belgíu og Noregi. Þá lék hann 65 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Hann hefði hins vegar getað farið til Englands en hann fór á reynslu hjá B-deildarliði Southampton.
„Mér leist mjög vel á það, gekk vel á æfingum og svona,“ segir Indriði um reynsluna hjá Southampton.
Þjálfari Southampton tjáði Indriða hins vegar að hann hyggðist nota 16 ára leikmann í stöðu vinstri bakvarðar og gæti því ekki samið við Íslendinginn.
„Hann segir við mig: „Við sjáum alveg að þú ert nógu góður til að vera hérna en við erum með einn ungan og efnilegan sem við viljum nota. Það væri ekki sanngjarnt gagnvart honum ef við myndum semja við þig og ekki sanngjarnt gagnvart þér ef við myndum semja við þig og spila honum.“ Þetta var Gareth Bale,“ segir Indriði og hlær, en Bale átti auðvitað eftir að eiga glæstan feril með Real Madrid og Tottenham síðar meir.
Indriði var fljótur að sýna því skilning að Southampton vildi nota Bale frekar, þó þetta hafi aðeins farið í taugarnar á honum fyrst um sinn.
„Maður skildi það kannski ekki þá. Ég hugsaði bara: Hvaða kjaftæði er þetta?“