Breiðablik hefur kallað Eyþór Aron Wöhler til baka úr láni frá HK. Ólafur Kristjánsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðabliki, segir frá þessu í samtali við Vísi.
Eyþór var lánaður frá Blikum í nágranna sína í byrjun tímabils. Hann skoraði þrjú mörk fyrir HK. Sóknarmaðurinn hafði komið í Breiðablik frá ÍA fyrir tímabil.
Ólafur segir í samtalinu við Vísi að Blikar vonist til þess að ganga frá skiptum Eyþórs aftur til félagsins strax í dag svo kappinn geti spilað með liðinu gegn KA á sunnudag.
Þetta er annar leikmaðurinn sem Blikar kalla til baka í dag en eins og 433.is sagði frá í morgun er Dagur Örn Fjeldsted kominn aftur frá Grindavík.
Breiðablik er í þriðja sæti Bestu deildarinnar, 13 stigum á eftir toppliði Víkings, auk þess sem liðið er í fullu fjöri í Evrópu.