Harry Kane gæti þénað allsvakalega ef hann ákveður að vera áfram hjá Tottenham í sumar.
Enski framherjinn, sem verður þrítugur síðar í mánuðinum, á aðeins ár eftir af samningi sínum við Tottenham og hefur ekki viljað framlengja hingað til.
Hann hefur því verið sterklega orðaður frá Tottenham svo félagið missi hann ekki frítt næsta sumar.
Bayern Munchen hefur boðið tvisvar í Kane. Seinna tilboðið hljóðaði upp á 70 milljónir punda. Daniel Levy stjórnarformaður Tottenham er hins vegar harður í horn að taka og vill 100 milljónir punda fyrir Kane, þrátt fyrir samningsstöðu hans.
Nú segir Telegraph að Tottenham vilji fá Kane til að skrifa undir langtímasamning og sé til í að borga honum vel fyrir. Nánar til tekið er Tottenham til í að bjóða Kane 400 þúsund pund í vikulaun til að vera áfram.
Auk Bayern hefur Kane verið orðaður við Manchester United.