Mauricio Pochettino, nýr stjóri Chelsea, ætlar að ræða við Dele Alli á næstunni en leikmaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar.
Pochettino og Alli störfuðu auðvitað lengi saman hjá Tottenham og var leikmaðurinn talinn einn sá mest spennandi í heimi.
Englendingurinn hefur hins vegar hrunið niður brekkuna undanfarin ár.
Nú er hann á mála hjá Everton en var á láni hjá Besiktas á síðustu leiktíð, þar sem hann átti erfitt uppdráttar.
„Ég vona að ég geti hringt í hann til að ræða við hann því hann er frábær náungi og mig langar að tala aðeins við hann. Mig langar að hjálpa honum og sjá hvað er um að vera,“ segir Pochettino.
Argentíski stjórinn telur að hinn 27 ára gamli Alli geti enn snúið við blaðinu.
„Hann er enn ungur. Hann hefur rétta hugarfarið.“