Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks, er brattur fyrir úrslitaleiknum gegn Buducnost í umspili um sæti í undankeppni Meistaradeildar Evrópu annað kvöld.
„Það er mikil tilhlökkun. Þetta eru leikirnir sem þú vilt spila og menn eru að puða fyrir. Það eru forréttindi að spila í Evrópu, mæta erlendum andstæðingum og máta sig við þá,“ segir Óskar við 433.is
Breiðablik mætti Buducnost í undankeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra og hafði betur en telur Óskar að leikurinn þar hjálpi Blikum ekki í ár.
„Hann gerir það ekki. Þeir eru með gjörólíkt lið, allt öðruvísi samsett, miklu stærra, þyngra og eldra.“
Gengi Breiðabliks í Bestu deildinni hefur verið undir væntingum. Gerir það Evrópukeppnina enn mikilvægari í ár?
„Hún er alltaf stór. Það skiptir engu máli. Það er nóg eftir af þessu móti og þeir sem ætla að afskrifa okkur í því geta bara gert það.
Evrópukeppnin hefur sitt líf og þú vilt alltaf gera eins vel og kostur er,“ segir Óskar.
Ítarlega er rætt við hann í spilaranum.