Jose Mourinho, stjóri Roma, var óvænt mjög auðmjúkur er hann ræddi við blaðamenn á fimmtudag.
Mourinho og hans menn eru komnir í úrslit Evrópudeildarinnar eftir að hafa slegið Bayer Leverkusen úr keppni.
Mourinho er þekktur fyrir það að vera ansi hrokafullur og með stórt egó en hann var ólíkur sjálfum sér eftir leik.
Portúgalinn hefur áður unnið Sambandsdeildina með Roma og eru nú góðar líkur á að annar bikar sé á leiðinni.
,,Ég er ekkert að hugsa um að skrá mig í sögubækurnar hjá Roma. Ég vil hjálpa þessum krökkum að þroskast og afreka stóra hluti,“ sagði Mourinho.
,,Þetta snýst líka um að hjálpa stuðningsmönnum Roma sem hafa gefið mér svo mikið frá fyrsta degi. Það er magnað að komast í annan úrslitaleik.“