Það eru blikur á lofti um að Lionel Messi gæti snúið aftur til Barcelona í sumar.
Samningur hins 35 ára gamla Messi við Paris Saint-Germain rennur út í sumar og það er komið á hreint að argentíski heimsmeistarinn fer frá borg ástarinnar.
Messi hefur hvað helst verið orðaður við Al Hilal í Sádi-Arabíu. Faðir hans sló hins vegar á orðróma um að samningar hefðu náðst þar á dögunum.
Þá vill Barcelona, félagið sem Messi neyddist til að yfirgefa vegna fjárhagserfiðleika þess sumarið 2021, fá hann aftur. Það þarf þó að taka duglega til í bókhaldinu ef það á að ganga upp.
Því hefur verið velt upp hvort sniðugt sé fyrir Börsunga að fá Messi á þessum tímapunkti eða hvort félagið ætti að marka sér nýja stefnu. Forsetinn Joan Laporta segir hins vegar að það yrði alltaf pláss fyrir Messi í kerfi knattspyrnustjórans.
„Xavi myndi ráða því algjörlega hvar Leo spilar,“ segir Laporta.
„Það verður aldrei vandamál að finna út úr því þegar kemur að besta leikmanni heims.“