Það er alls óvíst hvar Lionel Messi mun spila knattspyrnu á næstu leiktíð. Ljóst er að áhugi er í Katalóníu að fá hann aftur til Barcelona.
Samningur hins 35 ára gamla Messi við Paris Saint-Germain rennur út í sumar og það er komið á hreint að argentíski heimsmeistarinn fer frá borg ástarinnar.
Það er þó það eina sem er komið á hreint. Messi hefur hvað helst verið orðaður við Al Hilal í Sádi-Arabíu. Faðir hans sló hins vegar á orðróma um að samningar hefðu náðst þar á dögunum.
Þá vill Barcelona, félagið sem Messi neyddist til að yfirgefa vegna fjárhagserfiðleika þess sumarið 2021, fá hann aftur. Það þarf þó að taka duglega til í bókhaldinu ef það á að ganga upp.
Forseti og varaforseti Börsunga hafa báðir tjáð sig um stöðu mála undanfarið.
„Við munum gera allt til að fá Messi aftur til Barcelona,“ sagði forsetinn Joan Laporta. „Við munum ekki bjóða klikkaðar upphæðir. Við reynum að gera hagkvæmnisáætlun og láta þetta virka þannig.“
Varaforsetinn Rafa Yuste tjáði sig þá einnig en tók ekki eins djúpt í árina. „Messi? Hann er góður vinur margra sem eru að fagna sigrinum í La Liga. Ég er viss um að hann er ánægður,“ sagði hann, en eins og flestir vita tryggði Barcelona sér Spánarmeistaratitilinn í gær.
Stuðningsmenn Barcelona sungu þá nafn Messi í fögnuði gærdagsins.
Barça fans have clear ideas on Messi’s possible return 🔵🔴🎶 #FCB
🎥 @JijantesFCpic.twitter.com/ze30GBosXv
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) May 14, 2023