Graham Souness, fyrrum stjóri og leikmaður, bað James Milner afsökunar á ummælum sem hann lét falla fyrir mörgum árum síðan.
Souness var þá stjóri Newcastle og sagði á þeim tíma að það væri ekki hægt að vinna deildina með leikmenn eins og Milner í byrjunarliðinu.
Ástæðan var sú að Milner var aðeins krakki á þessum tíma en hann átti síðar gríðarlega farsælan feril og vann deildina bæði með Manchester City og Liverpool.
Souness starfaði með Milner hjá Newcastle um tíma og sér eftir því að hafa látið þessi ummæli fara í loftið.
,,Hjá Newcastle þá þekkti ég hann sem unglamb og hann hefur nú þroskast í alvöru atvinnumann og er tíu af tíu í búningsklefanum,“ sagði Souness.
,,Hann var pirraður út í mig í mörg ár hjá Newcastle því ég sagði að þú gætir ekki unnið deildina með James Milner í liðinu. Hann tók því eins og ég væri að segja að hann væri ekki nógu góður.“
,,Ég var að reyna að segja að þú þyrftir karlmenn. Hann var bara 19 ára gamall. Ég hef beðið hann afsökunar og ég vona innilega að hann sé búinn að fyrirgefa mér.“