Stuðningsmenn Chelsea voru í stuði í gær er liðið mætti Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni.
Chelsea vann loksins leik í efstu deild og hafði betur með þremur mörkum gegn einu á útivelli.
,,Við munum halda okkur uppi,“ sungu stuðningsmenn Chelsea í leiknum en ljóst er að liðið er búið að forðast fall.
Chelsea hafði tapað sex leikjum í röð fyrir leikinn í gær en gengi liðsins á tímabilinu hefur verið skelfilegt.
Stuðningsmenn liðsins hafa sætt sig við stöðuna og gerðu grín að genginu eftir þriðja markið og sungu þar kaldhæðnislega í átt að leikmönnum.
Chelsea er með einn dýrasta leikmannahóp deildarinnar og er alls ekki ásættanlegt að félagið sé um miðja deild þegar stutt er eftir.