Jurgen Klopp vill ekki að stuðningsmenn Liverpool syngi nafn sitt á meðan leik stendur.
Þetta sagði þýski stjórinn eftir magnaðan sigur Liverpool á Tottenham um helgina.
Liverpool komst í 3-0 en missti forskotið niður í 3-3 í lokin, áður en liðið gerði sigurmarkið í blálokin.
„Ekki syngja lagið um mig. Ef þið viljið syngja það, gerið það á barnum eftir leik eða eitthvað,“ segir Klopp.
„Það er nánast eins og leikurinn sé að klárast. Við erum 3-0 yfir eftir 15 mínútur og þau fara að syngja „Ég er svo glaður að Jurgen sé rauður.“ Ég hugsaði: Þetta er ekki búið.
Það væri mjög gott ef þau gætu geymt þetta þar til síðar.“
Liverpool er í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, 7 stigum á eftir Manchester United sem á leik til góða. Það er því hæpið að lærisveinar Klopp nái Meistaradeildarsæti, sem verða að teljast mikil vonbrigði.
Annað kvöld tekur Liverpool á móti Fulham. Myndi sigur styrkja stöðu liðsins í baráttunni um Evrópudeildarsæti.