Erik ten Hag, stjóri Manchester United, hafnaði beiðni Alejandro Garnacho um að fá að spila á Heimsmeistaramóti U-20 ára landsliða í næsta mánuði.
Garnacho er Argentínumaður og var valinn í bráðabirgðahóp U-20 ára liðsins fyrir mótið, en það á eftir að velja endanlega hópinn. Kantmaðurinn þrælefnilegi hefði þó að öllum líkindum verið valinn.
Argentína heldur mótið og fer það fram 20. maí til 11. júní.
Ef Ten Hag hefði leyft Garnacho að fara hefði kappinn hins vegar misst af síðustu leikjum United á leiktíðinni, þar með er talinn bikarúrslitaleikurinn gegn Manchester City 3. júní.
Garnacho er þá að snúa aftur eftir ökklameiðsli og var Ten Hag ekki tilbúinn að hleypa honum burtu með argentíska liðinu á þessum tímapunkti.
Hann hafnaði því beiðni leikmannsins, sem vildi fá að fara á mótið.