Kylian Mbappe hefur gefið í skyn að framtíð hans liggi hjá Paris Saint-Germain.
Stjörnuleikmaðurinn hefur linnulaust verið orðaður frá PSG undanfarin ár, en hann skrifaði undir tveggja ára samning með möguleika á árs framlengingu fyrir ári síðan.
Real Madrid er sagt hafa mikinn áhuga á Mbappe og hefur spænska félagið fylgst með honum lengi.
„Næsta skref? Það er að vinna Meistaradeildina,“ sagði Mbappe í nýju viðtali og gefur í skyn að hann eigi enn óklárað verk í borg ástarinnar.
„Ég hef þegar farið í úrslit, undanúrslit, 8-liða úrslit og 16-liða úrslit. Ég hef gert allt nema vinna. Það er það sem ég þarf að gera og ég vil gera það hér í París. Ég er með samning hér hjá PSG.“
Þrátt fyrir mikið umtal hefur Mbappe verið stórkostlegur og raðað inn mörkum á þessari leiktíð. Hann hefur skorað 31 mark í öllum keppnum.