Þættirirnir Stormur hafa vakið verðskuldaða athygli á RÚV síðustu vikur en þar er farið yfir COVID-19 bylgjuna sem reið hér yfir árin 2020 og 2021.
Ein af stærstu fréttunum í COVID bylgjunni kom sumarið 2020 þegar Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir landsliðskona í knattspyrnu greindist með COVID-19.
Í Stormi er Víði Reynissyni fylgt eftir þar sem hann hefur lesið frétt um það að Andrea Rán væri smituð. „Komið í miðlana,“ segir Víðir við Ævar Pálma Pálmason lögreglumann sem starfaði í rakningarteyminu.
„Búið að nafngreina hana? Djöfulsins hyski er þetta,“ segir Ævar við Víði en frétt um smit Andreu birtist á Fótbolta.net og var birt í Stormi á RÚV.
Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands úrskurðaði að að Fótbolti.net hefði brotið siðareglur í tengslum við nafn og myndbirtingu af Andreu.
Andrea sjálf er til viðtals í þættinum og ræðir málið. „Ég náði ekki andanum og ég hef aldrei gert þetta áður. Ég byrjaði á að öskra og veina, það fóru tilfinningar af stað sem ég hef ekki upplifað áður,“ sagði Andrea.
„Vont mál í alla staði fyrir alla,“ sagði Víðir Reynisson í þættinum Stormur á RÚV.
Meira er fjallað um fótbolta í þættinum og var meistaraflokkur karla Stjörnunnar tekinn fyrir eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan.