Bayern Munchen fylgist grannt með gangi mála hjá Marcus Rashford, stjörnu Manchester United. Bild segir frá þessu.
Rashford hefur verið frábær fyrir United á þessari leiktíð og skorað 21 mark í öllum keppnum.
Bayern hefur fylgst vel með Rashford frá því hann heillaði með enska landsliðinu á Heimsmeistaramótinu í Katar.
Samningur Rashford við United rennur út eftir næstu leiktíð, en félagið virkjaði eins árs framlengingarákvæði í samningi hans í desember.
Ljóst er að Rashford verður ekki ódýr í sumar í ljósi frammistöðu hans á leiktíðinni. Bayern gæti því beðið fram á sumarið 2024 og reynt að fá hann á frjálsri sölu.
Hjá United vilja menn hins vegar ólmir framlengja samning hins 25 ára gamla Rashford.
Rashford er ekki eini leikmaðurinn sem Bayern hefur áhuga á. Þýska félagið er einnig að skoða það að bjóða í Harry Kane. Samningur hans við Tottenham rennur einnig út sumarið 2024.