Ívar Ingimarsson, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu og núverandi stjórnarmaður í stjórn Knattspyrnusambands Íslands vill að sambandið standi fyrir úttekt á knattspyrnumannvirkjum utan stór-höfuðborgarsvæðisins.
Þetta kemur fram í fundargerð frá síðasta fundi stjórnar KSÍ sem fór fram þann 10. janúar síðastliðinn.
Þar var lagt fram skriflegt erindi frá Ívari þar sem hann fer þess á leit við stjórn að hún heimili þessa úttekt og má lesa út úr fundargerðinni að unnið verði að úttektinni yfir árið 2023.
„Stjórn samþykkti að fela nýjum leyfisstjóra verkefnið. Stefnt er að skýrsla til stjórnar verði tilbúin eigi síðar en 31.12.2023. Rætt um að kanna mögulega aðkomu Byggðastofnunar,“ segir í fundargerð stjórnar KSÍ.