Mikel Arteta, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Arsenal er áhyggjufullur yfir stöðunni á miðjumanni liðsins, Egyptanum Mohamed Elneny sem glímur nú við hnémeiðsli.
Elneny meiddist á hné í aðdraganda Norður-Lundúna slagsins gegn erkifjendunum í Tottenham á dögunum og óttast er að hann gæti verið frá út tímabilið.
Arteta tjáði sig um stöðuna á Elneny á blaðamannafundi í dag í aðdraganda leiks Arsenal gegn Manchester City í enska bikarnum sem fer fram á föstudaginn.
„Við höfum áhyggjur, sér í lagi vegna þess að Mo er leikmaður sem kvartar aldrei. Hann hefur verið að eiga í erfiðleikum með hnéð á sér og sú staða er í skoðun núna. Við þurfum að sjá hvernig þetta þróast.“
Staðan á Elneny gæti orðið til þess að Arsenal hugsi sér til frekari hreyfings á félagsskiptamarkaðnum sem lokar rétt fyrir miðnætti á þriðjudaginn næstkomandi. Arsenal hefur verið að breikka leikmannahóp sinn í glugganum, fengið til sín Leandro Trossard og Jakub Kiwior en meiðsli Elneny valda því að Albert Sambi Lokonga er eini hreinræktaði varamaðurinn í stöðu Thomas Partey á miðsvæðinu.
„Við þurfum aðra varaskeifu þarna á miðsvæðinu ef möguleiki er á því. Það er flókin staða á markaðnum eins og er en ef okkur stendur eitthvað til boða þá munum við skoða það.“