Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool og núverandi sérfræðingur Sky Sports í tengslum við enska boltann telur að Arsenal muni standa uppi sem Englandsmeistari á yfirstandandi tímabili.
Skytturnar frá Norður-Lundúnum hafa verið á mögnuðu skriði á þessu tímabili, aðeins tapað einum leik í deildinni og sitja nú á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með fimm stiga forskot og leik til góða á Manchester City.
Jamie Carragher og Gary Neville, sérfræðingar Sky Sports voru í gær látnir spá í spilin fyrir lokahnykk deildarinnar.
Carragher taldi Arsenal enda uppi sem Englandsmeistari á meðan að Gary Neville telur að Manchester City muni klára dæmið.
,,Fyrir mitt leiti hvað Arsenal varðar þá snýst þetta ekki aðeins um bilið í stigafjölda liðanna heldur einnig frammistöðu þeirra í stóru leikjunum,“ sagði Carragher og hélt áfram. ,,Ef við förum aftur til fyrstu leikjanna eftir HM þá gengu þeir frá Brighton, gerðu jafntefli við Newcastle sem er með bestu vörn deildarinnar og náðu sér yfir línuna gegn Manchester United.“
Neville var ósammála kollega sínum í setti.
,,Ég er spurður að þessu á svona tíu mínútna fresti þessa dagana. Jafnvel Arsenal stuðningsmenn hljóta að vera orðnir þreyttir á að fá svona spurningar.
Við erum ekki komin nógu langt inn í tímabilið til þess að fara í vangaveltur um hvar titillinn muni enda. Ef ég lít bara aftur til minna daga sem leikmaður Manchester United þá finnst mér Manchester City ekki verið komið í sinn efsta gír.
Þegar að vélin fer hins vegar að malla munu þeir elta Arsenal uppi. Það hefur ekki alltaf gengið upp í sögunni. Blackburn náði að halda okkur (Manchester United) fyrir aftan sig á sínum tíma, Newcastle náði því ekki. Lokaspretturinn að titlunum hefst ekki fyrr en um níu leikir eru eftir.“
Neville hefur starfað sem sérfræðingur í kringum þrjá leiki hjá Arsenal eftir að enska úrvalsdeildin fór aftur af stað eftir HM og þetta er hans mat:
,,Þeir hafa heillað mig í hvert einasta skipti…Ég hef verið yfir mig hrifinn af þeim en með þessa ungu leikmenn held ég að þeir klári þetta ekki. Ég furða mig í raun á því að við séum að tala um þá í þessu samhengi.“