Portúgalska knattspyrnugoðsögnin Cristiano Ronaldo er sagður hafa skemmt heldur betur fyrir mögulegum félagsskiptum sínum til annað hvort Þýskalandsmeistara Bayern Munchen eða enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea á síðasta ári eftir að hann reyndi að komast frá félaginu síðasta sumar.
Það er spænska staðarblaðið El Mundo sem greinir frá og segir að Jorge Mendes, þáverandi umboðsmaður Ronaldo hafi haft samband við forráðamenn nokurra stórra félagsliða í Evrópu síðasta sumar til þess að bjóða þeim Ronaldo.
Meðal þessara félagsliða voru Bayern Munchen og Chelsea og samkvæmt frétt El Mundo voru bæði félög vel meðvituð um það hversu verðmæt vara Ronaldo gæti verið þeim en ákvörðun Ronaldo um að mæta ekki til æfinga hjá Manchester United í upphafi undirbúningstímabilsins hafi hins vegar fælt þau frá honum.
Í kjölfar ákvörðunar Ronaldo segist El Mundo hafa heimildir fyrir því að forráðamenn bæði Bayern Munchen og Chelsea hafi sett sig í samband við umboðsmann hans og tjáð honum að áhugi á því að fá Ronaldo til liðs við sig væri ekki lengur til staðar.
Ronaldo fékk samningi sínum við Manchester United rift eftir umdeilt viðtal sem hann veitti breska fjölmiðlamanninum Piers Morgan. Í viðtalinu sagði Ronaldo farir sínar ekki sléttar hjá Manchester United, hann væri þar gerður að svörtum sauð.
Viðtalið vakti heimsathygli en nú er Ronaldo orðinn leikmaður Al-Nassr í Sádi-Arabíu.