Leikur Chelsea og Liverpool í úrvalsdeild kvenna á Englandi var flautaður af í gær eftir aðeins tæpar sex mínútur eftir að dómari leiksins mat vallaraðstæður óboðlegar. Mikið frost hafði verið á svæðinu sem varð til þess að völlurinn sem spilað var á var frosinn og mátti sjá leikmenn í miklum erfiðleikum með að fóta sig á honum.
Atburðarásinni hefur verið lýst sem farsakenndri og hefur enska knattspyrnusambandið í kjölfarið fengið á sig mikla gagnrýni fyrir framkvæmd leiksins. Eftir nokkurra mínútna leik sá dómari leiksins fram á það að aðstæðurnar sem spilað var við væru einfaldlega hættulegar leikmönnum og hafa myndskeið frá honum sem birst hafa á samfélagsmiðlum varpað ljósi á það.
Emma Hayes, margreyndur þjálfari Chelsea segir að leikurinn hefði aldrei átt að fara fram.
„Maður gat séð það strax á upphafsmínútunum leiksins að völlurinn var eins og skautasvell. Leikurinn hefði aldrei átt að vera spilaður. Það vildu allir spila leikinn en í þessum tilfellum erum við að spila með tilfinningar leikmanna og liða, hvort þær vilji spila eða ekki og í þeim tilfellum verður ákvörðunin að koma frá knattspyrnusambandinu. Knattspyrnusambandið var ekki hér en ætti að vera taka þessar ákvarðanir.“
Málið þykir varpa ljósi á það hversu langt kvennaknattspyrnan er á eftir karlaboltanum. Beth Mead ein af stjörnum enska landsliðsins tjáði sig um atburðarásina í færslu á Twitter.
„Á alvarlegu nótunum. Þetta er ein af bestu deildum Evrópu og við erum að aflýsa leikjum vegna frosinna valla. Þetta er ekki nægilega gott, kvennaknattspyrnan hefur verið að fara í rétta átt en það er greinilega langt í land enn þá.“
The Athletic birti í dag ítarlega grein um framkvæmd leiksins og þá staðreynd að fara þurfi fram rannsókn og greining á því af hverju hann í fyrsta lagi hafi verið flautaður á.
„Þetta er skammarlegt og varpar ljósi á skortinn á almennilegum innviðum í kvennaknattspyrnunni. Deildin stærir sig af því að vera samkeppnishæfasta deild Evrópu, laðar til sín bestu leikmennina og er studd áfram af tímamóta sjónvarps- og styrktarsamningum en þetta er dagur sem varpaði ljósi á alla veikleika deildarinnar.“
Svipmyndir frá upphafsmínútunum í leik Chelsea og Liverpool má sjá hér fyrir neðan:
— frankirbydaily (@frankirbydaily) January 23, 2023