Sölvi Geir Ottesen er gestur í nýjasta þætti Chat After Dark. Þar fer fyrrum knattspyrnumaðurinn yfir víðan völl.
Sölvi kom víða við á ferli sínum. Hann fór meðal annars til Tælands, þar sem hann spilaði með Buriram United.
Hann var heima á Íslandi þegar tilboð frá félaginu kom óvænt upp.
„Ég fæ símtal frá umboðsmanninum: „Ertu klár klukkan átta annað kvöld? Það er lið frá Tælandi sem vill þig. Ég held ég hafi verið þunnur þarna en keyrði á þetta,“ segir Sölvi.
„Sex dögum seinna var fyrsti leikurinn í tælensku deildinni. Ég fékk sex daga undirbúningstímabil.
Ég held ég hafi átt lélegasta fyrri hálfleik ævi minnar. Mér leið eins og ég væri að hlaupa í hné háu vatni allan tímann. Þeir voru svo fljótir, ég held að fljótasti maðurinn í deildinni hafi verið að spila á móti mér.“
Sölvi hélt að hann fengi ekki að spila seinni hálfleik. „Ég hugsaði í hálfleik: Heyrðu þeir taka mig út af og senda mig í fyrsta flugi heim.
Sem betur fer fékk ég tækifæri í seinni hálfleik og náði að setja jöfnunarmark. Það reddaði starfinu.“
Sölvi lagði skóna á hilluna árið 2021 eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með Víkingi R. Hann hefur einnig leikið í Kína, Danmörku og Svíþjóð á ferlinum.