Sóknarmaðurinn Luke Rae og knattspyrnudeild Gróttu hafa komist að samkomulagi við knattspyrnudeild KR um að Luke gangi til liðs við Vesturbæjarliðið.
Englendingurinn ungi gekk til liðs við Gróttu frá Vestra í árslok 2021 og náði að festa rætur kyrfilega í Seltjarnarnesi á tíma sínum hér. Auk þess að vera lykilmaður innan vallar var Luke ekki síðri utan vallar, en hann er mikil fyrirmynd og sómadrengur. Luke kom að þjálfun fjögurra flokka meðfram því að spila með meistaraflokki.
Á síðasta tímabili lék hinn 22 ára gamli Luke á hægri væng Gróttu og skoraði hann 9 mörk í 23 leikjum. Þessi hraði leikmaður var síógnandi og lagði upp fjölda marka fyrir liðsfélaga sína, fimmtán alls. Kom hann því að 24 mörkum í 23 leikjum. Myndaði hann öflugt sóknarþríeyki með Kjartani Kári og Kristófer Orra.