Alfons Sampsted gekk á dögunum í raðir Twente í Hollandi á frjálsri sölu frá Bodo/Glimt. Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari hjálpaði honum við að taka ákvörðunina.
Hinn 24 ára gamli Alfons hafði verið hjá Bodo/Glimt í þrjú ár og tvisvar orðið Noregsmeistari. Hægri bakvörðurinn tók svo skrefið til Twente um áramótin.
Arnar spilaði einmitt með Twente á leikmannaferli sínum. Alfons leitaði ráða hjá honum.
„Á sínum tíma var ég með nokkra kosti og var bara að viðra hugmyndirnar við hann. Þá sagði hann mér frá sinni reynslu af Twente. Hún var góð. Hann sagði að þetta væri flottur staður að vera á sem fótboltamaður og manneskja. Hann hafði virkilega góða hluti að segja, að þetta væri skemmtilegt næsta skref á ferlinum. Hans mat hafði mikið að segja þegar kom að því að taka ákvörðun,“ segir Alfons í viðtali við Fréttablaðið í dag.
„Ég tel að ég geti lært margt hérna. Ég hef tekið eftir því fyrstu vikuna að það er hátt tempó og það er mikið lagt upp úr því að leysa sínar stöður. Ef ég set saman það sem ég hef lært um að vinna í kerfi og liðsheild hjá Bodo/Glimt við það að vera hörkugóður í einn á móti einum og sem einstaklingur í Twente held ég að ég sé búinn að taka stórt skref og að það verði gott fyrir landsliðið.“