Brasilíska knattspyrnugoðsagnarinnar Pelé er minnst um allan heim þessar klukkustundirnar en þessi merki knattspyrnumaður lést í gær, 82 ára að aldri, eftir langvinn veikindi. Pelé hafði verið inniliggjandi á sjúkrahúsi í langan tíma og hafði undanfarnar vikur verið á Albert Einstein sjúkrahúsinu í Sao Paulo, umvafinn fjölskyldu sinni.
Pelé verður minnst sem einn besti knattspyrnumaður sögunnar og til marks um þau áhrif sem hann hafði á fólk á sinni lífsleið í gegnum íþróttina er vart hægt að finna þann fjölmiðil sem ekki er að minnast hans þessar klukkustundirnar. Þá eru færslur og minningarorð um Pelé afar áberandi á samfélagsmiðlum.
Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Brasilíu sem er einnig til marks um áhrifin sem Pelé hafði í gegnum knattspyrnuiðkun sína. Margir þekktir einstaklingar, sem og félög innan og utan knattspyrnuhreyfingarinnar, minnast Pelé og votta fjölskyldu hans sem og brasilísku þjóðinni, samúð sína.
Samlandi hans, brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar hefur fengið að heyra sinn skerf af sögum bæði af og frá Pelé.
„Fyrir Pelé var 10 bara númer. Ég myndi taka dýpra í árina og segja að fyrir Pelé hafi fótbolti bara verið íþrótt. Pelé breytti öllu, hann gerði fótbolta að list, að skemmtun. Hann gaf fátækum og minnihlutahópum rödd. Hann dró kastljósið að Brasilíu. Fótboltinn og Brasilía hafa bætt stöðu sína þökk sé konunginum. Nú er hann farinn en töfrar hans eru enn til staðar. Pelé er eilífur!“
Lionel Messi, nýkrýndur heimsmeistari með argentínska landsliðinu er einn þeirra sem vottar Pelé virðingu sína á samfélagsmiðlum. „Hvíl í friði Pelé,“ skrifar Messi í færslu á samfélagsmiðlum.
Cristiano Ronaldo gerir slíkt hið sama.
„Það eitt að „kveðja“ hinn eilífa Pelé mun aldrei duga til að tjá sársaukann sem umvefur allan fótboltaheiminn á þessari stundu. Innblástur fyrir svo margar milljónir,“ skrifar Ronaldo og sendir fjölskyldu Pelé einnig samúðarkveðju.
Sir Geoff Hurst, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður Englands í knattspyrnu mætti Pelé á sínum knattspyrnuferli.
„Ég á svo margar minningar af Pelé, hann er án nokkurs vafa besti leikmaður sem ég hef mætt á vellinum. Fyrir mitt leiti er Pelé besti leikmaður sögunnar og ég er stoltur af því að hafa deilt með honum knattspyrnuvellinum. Hvíl í friði Pelé og takk fyrir mig.“
Kylian Mbappe, stjörnuframherji Paris Saint-Germain og franska landsliðsins naut þeirrar gæfu að hitta Pelé og segir hann konung knattspyrnunnar nú hafa kvatt sviðið. „Arfleifð hans mun hins vegar aldrei gleymast. Hvíl í friði.
Mörg af stærstu knattspyrnufélögum heims minnast Pelé einnig og senda fjölskyldu hans samúðarkveðju.
„Pelé er einn besti leikmaður knattspyrnusögunnar og sem einn þekktasti íþróttamaður heimsbyggðarinnar skildi hann sameiningarkraftinn sem býr í íþróttum. Hugur okkar er hjá fjölskyldu hanns og öllum þeim sem elskuðu og dáðu Pelé,“ skrifar Barack Obama, fyrrum Bandaríkjaforseti.