Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður knattspyrnusviðs hjá KSÍ, hefur tjáð sig um skýrslu Grétars Rafns Steinssonar sem hefur verið á allra vörum undanfarna daga.
Grétar starfaði fyrir KSÍ frá því í byrjun árs og fram á sumar. Undir lok tíðar sinnar í Laugardal skilaði hann inn skýrslu. Þar er margt mjög áhugavert að finna sem við kemur bæði aðildarfélögum KSÍ sem og sambandinu sjálfu.
Fréttablaðið hefur undanfarið birt skýrsluna. „Við erum ánægð með vinnu Grétars, hann kom til okkar í byrjun árs og var í rúmt hálft ár. Við erum gríðarlega ánægð með hans störf,“ segir Jörundur við Fréttablaðið.
Jörundur er þó ekki sammála innihaldi skýrslunnar í einu og öllu. „Ég er sammála mjög mörgu. Þó er ekki allt sem ég get kvittað undir en flest það sem hann nefnir finnst mér vert að hugsa um.“
Eitt af því sem Grétar gagnrýnir í skýrslu sinni er að félög hér heima borgi leikmönnum sínum atvinnumannalaun í áhugamanna umhverfi.
„Okkur kemur það bara ekkert við. Félögin sjá algjörlega um sinn rekstur sjálf en ég fagna því að umhverfið hér heima sé að verða nær því sem það er í Skandinavíu og þeim löndum sem við berum okkur saman við.
Það er að segja þetta er meira farið að líkjast umhverfi atvinnumannaliða. Lið æfa mörg hver tvisvar sinnum á dag, það er verið að fara í eina til tvær æfingaferðir á ári og lið eru taka þátt í Evrópukeppni svo dæmi sé tekið,“ segir Jörundur.
Hann segir jákvætt að leikmenn fái greitt fyrir sína vinnu. „Það er bara mjög jákvætt. Ég get hins vegar ekki svarað fyrir þær upphæðir sem verið er að greiða leikmönnum, ég bara veit ekki hvað er verið að greiða leikmönnum fyrir þetta.
Hins vegar fagna ég því að það séu til peningar í íþróttum á Íslandi og sé ekkert nema jákvætt við það. Svo verða aðrir að svara fyrir það hversu háar þessar upphæðir eru og hvort það sé réttlætanlegt að vera borga fólki mikla peninga fyrir að vera spila fótbolta á Íslandi.“
Grétar gagnrýnir einnig meðalaldur liða hér heima og segir hann of háan. Jörundur skilur það.
„Það er vonandi eitthvað sem félögin skoða. Að ungir leikmenn fái tækifæri til að þroskast og þróast og muni nýtast félögunum, bæði sem félagsmenn, leikmenn og svo mögulega sem söluvara seinna meir. Þetta helst allt í hendur.“
Ítarlega er rætt við Jörund í Fréttablaðinu. Þar er farið yfir fleiri þætti skýrslunnar og viðbrögð Jörundar.