Portúgalska knattspyrnusambandið hefur gefið út yfirlýsingu í kjölfar frétta þess efnis að Cristiano Ronaldo hafi hótað því að yfirgefa herbúðir landsliðsins á Heimsmeistaramótinu í Katar.
Hinn 37 ára gamli Ronaldo átti að hafa hótað þessu eftir að Fernando Santos landsliðsþjálfari tók hann úr byrjunarliðinu fyrir 6-1 sigur Portúgal á Sviss í 16-liða úrslitum HM.
Þetta er alrangt ef marka má yfirlýsinguna.
Þar segir að Ronaldo sé með fulla einbeitingu á portúgalska landsliðið og hann haldi áfram að reyna að byggja ofan á þann frábæra árangur sem hann hafi náð með liðinu.
Portúgal mætir Marokkó í 8-liða úrslitum HM á laugardag. Leikurinn hefst klukkan 15 að íslenskum tíma.
Það verður að teljast ólíklegt að Ronaldo verði í byrjunarliðinu í leiknum. Í fjarveru hans skoraði hinn 21 árs gamli Goncalo Ramos þrennu.